Æviágrip

Alistair Macintyre, (fæddur 1958), er breskur listamaður, sem býr og starfar í Reykjavík. Alistair útskrifast frá listaháskólanum í Cardiff, Wales, (Cardiff School of Art) árið 1990 og var í framhaldinu valinn nemi ársins á listamessunni í Eisteddfod í Wales. Einkasýning hans í Turnpike listhúsinu í Manchester, í 1997, var valin sýning vikunnar í Bretlandi af blaðinu The Guardian. Alistair flutti til Íslands fljótlega eftir það og hefur haldið einkasýningar víða m.a. í Listasafni Reykjavíkur (Kjarvalsstöðum) og Listasafni Kópavogs (Gerðarsafni). Síðasta sýning hans var í Ketilshúsinu 2010; opnunarsýning Listasumars á Akureyri.

Verk Alistair hafa verið sýnd á fjölda samsýninga - hérlendis og erlendis - og eru í eigu opinbera aðila og einkasafna á Íslandi, Bretlandi og Ameríku.

Um Verkin

Þessi stóru íslistaverk eða ísþrykk liggja einhvern staðar á mörkum höggmynda og teikni-listar; unnin úr ísblokkum og járnlitarefnum, sem smám saman bráðna ofan í pappírinn. Við bráðnunina falla út efni sem minna helst á jarðvegsleifar eða steingervinga mótaða af tíma og þyngdarafli. Ryðlituð í mörgum blæbrigðum, en sums staðar svört og sums staðar blá.

Áferðaþykku listaverkin bera sterkan svip af atgangi/ ágangi íslenskra náttúruafla og stöðugum umbreytingum landsins; flóð ánna yfir eyrar og sanda, hopandi skriðjökla og jökulöldur, breytingar jarðskorpu og bergrunns. Þau endurspegla landið sem gefur frá sér allt efni og sýnir. Byggingarlist náttúrunnar er rakin í sundur. Vafningurinn brotnar niður og endurfæðist aftur með tímanum. Breyting verður á efninu sem sundrast, sameinast aftur, umbreytist og hleðst - að lokum – upp sem misþykk setlög jarðefna og lita.

Í listaverkunum verður maður áþreifanlega var við þá óafturkallanlegu þróun að innviðir jarðar og náttúru eru smám saman að brotna niður; jörðin hlýnar og jökulkápan bráðnar, þynnist og hopar. Dreggjar liðinna tíma – þess sem einu sinni var – reka á land á yfirborði listaverkanna; varðveitast þar og öðlast nýtt líf í samtímanum.